Biðin Ég hafði nokkra sem ég þekki í huga þegar þetta var samið og mér þótti
pælingin þess virði að setja á blað.
Nafnið á laginu varð svo algjört réttnefni, því lagið er það langt að maður gerir
ekkert annað en að bíða eftir endinum, finnst manni stundum.

Þorri samdi lagið sem er eitt af þeim fyrstu sem hann samdi á mandolin.

KELI


Biðin

Ungur ég elskaði konu,
aldrei hún kom í mitt net.
Hún sagði: hittumst við barinn,
ég hleyp til þín leið og ég get.

Ég kvaldist á barnum í korter,
kanski var tónlistin há.
Ég fékk mér í fimtánda glasið
og fannst í því trega minn sjá.

Ég beið þarna um blautlega helgi,
brölti um útslitið gólf.
Klukkan þó kjagaði áfram,
korteri meira en tólf.

Ég vakti í viku á barnum
og vissi ekki skapaðan hlut.
Ég hamingju hélt fyrir stafni
og hlakkandi vínið í skut.

Ég hinkraði í hálfann mánuð,
hellti í mig whisky og bjór.
Dónarnir dældu í glösin
og daprir þeir skældu í kór.

Ég dokaði út dimma árið,
í draslinu fann mér samt ró.
Biðin hún breytti þar engu,
bytturnar gleyma og þó.

Svo tórði ég út tíu árin,
tapaði ei síðkvöldi úr.
Varð þekktur sem þrjóskasta byttan,
þyrstur og bitur og klúr.

Svo var á mig kveðjunni kastað,
hún kom eftir öll þessi ár:
"þú ert beinlínis mislukkuð bytta
með brothættar framtíðarspár".

Hrækjandi hljóp ´ún í burtu,
hataði það sem hún sá.
Ég stóð bara og starði í tómið
stjarfur á lúsugri krá.

Eiga ekki orðin að standa?
Er ekki dómurinn frat?
Ég held, ég hætti að bíða
og heimleiðis dregst fyrir mat.

til baka