Þessi texti er alveg hundgamall, einn af mínum fyrstu, saminn löngu áður en það
hvarflaði að mér að ég yrði meðlimur í bandinu eða þetta yrði band yfirleitt.
Og gott ef þeir félagar Jökull og Þorri fluttu þetta ekki á sinni fyrstu upptroðslu.

Þorri samdi lagið á Hyundai gítarinn sinn með bogna hálsinum.
Og samkvæmt minni skilgreiningu er þarna á ferðinni súrrandi kántrí.

KELI


Búkolla

Að bónda glotta þá barmar hann sér,
ég Búkollu leiði á bás.
Beljunum hotta boginn og hás,
ég Búkollu leiði, ég Búkollu leiði,
ég Búkollu leiði á bás.

Nú berst ég á móti þessum bölvaða storm,
Búkolla baular svöng.
Blár af kulda og bágt er með föng,
Búkolla baular, Búkolla baular,
Búkolla baular svöng.

Það brást með mjólkina en brýnt er að tóra,
Búkolla er borin kálf.
En boli er verðlaus, við étum hann sjálf.
Búkolla er borin, Búkolla er borin,
Búkolla er borin kálf.

Bann er sýnt með búskap um lönd,
Búkolla beiðir enn.
Við búum til fjöll segja í blöðunum menn.
Búkolla beiðir, Búkolla beiðir,
Búkolla beiðir enn.

Brýnum nú forka og blöndum í kaffið,
og Búkolla á beit útá hól.
Bindum heyið og biðjum um sól.
og Búkolla á beit, Búkolla á beit,
og Búkolla á beit útá hól.

Bregð ég nú búi og í borgina flyt,
Búkollu borðum sem hakk.
Ábótum mun lifa blessuð og takk.
Búkollu borðum, Búkollu borðum,
Búkollu borðum sem hakk.

til baka