"Litlu verður Vöggur feginn" er stundum sagt
og eitt er víst að það sem við álítum að sé okkar
helsta gleði í lífinu er gjarna það sem brennir okkur upp seinna.
Textinn fjallar soldið um einelti og þau hálmstrá
sem við grípum í þegar við verðum undir í lífinu.

Lagið sem er eftir þorra er nokkurra ára gamalt
var hugsað upphaflega á annan vetvang og hefur
því ekki verið á prógrammi Hundslappadrífu
fyrr en nú og er eitt af þessum flottu rólegu
lögum sem Þorri er svo flínkur í að semja.

Keli.



Hamingjan

Hamingjan birtist í harðsoðnum eggjum,
hökkuðum rollum, pulsu og kók.
Lítill í hjarta og læðist með veggjum,
var laminn í skóla og pissaði í brók.

Hamingjan kemur í hlaupkenndum sósum,
handfylli af rófum, saft út á graut.
Það er dimmt niðri í vinnu, ég dansa ekki á rósum
djöflarnir hlæja og kalla mig naut.

Hamingjan leynist í heilsteiktum fiski
hákarli á pinna, kollu af bjór.
Stelpurnar flissa af stútfullum diski,
það stríða mér börnin og hlæja í kór.

Hamingjan dafnar í helling af pasta,
hrökkbrauði norsku, ískaldri mjólk.
Ég mjakast upp tröppur, mæðunni kasta,
meinlega glottir þetta kaldlynda fólk.

Hamingjan gerjast í hamflettum gæsum,
hringlaga snúðum, spræti og ís.
Það er einmanna sál er vindarnir væs´um
vonleysið stjórnar og dagurinn rís.

til baka