Þennan texta samdi ég á einhverju síðkvöldinu og varð hugsað til allra þeirra lögfræðinga
sem hafa í gegnum tíðina orðið ríkari á því að rukka mig um einhvern fjandann sem mér
finnst ekkert réttlæti í, og trúið mér þeir eru ófáir þessir andskotar.

Þorri samdi lagið og þetta er fyrsta lagið sem mér fannst almennilega þjóðlegt hjá honum.

KELI


Dánarbeð stórlax

Í bæli liggur búkur,
byttan er fárlega sjúk.
Angist úr náfölu andliti skín,
ábreiðan krumpuð og mjúk

Til fortíðar hugur flakkar í nótt,
finnur að dauðinn er nær.
Drungalegt verður í dauðs manns gröf,
djöfullinn meinlega hlær.

Lög hann ungur lærði ,
með löngun í metorð og fé.
Hösslaði stórlega heiðarlegt fólk,
hratt upp með skalanum sté.

Kaldlyndan hug þarf í kappróður þann,
að kaupa sér steypu og frið.
Í flösku af skota er flauelsmjúkt tár,
og fráhvörfin dokandi við.

Konan vaktar karlinn,
kuldalegt ber hún glott.
Arfurinn bíður svo ótrúlegt fé,
ekkjan mun velstæð 0g flott.

Hún fyrirgaf aldrei þann forstjórasið,
sem fljótt varð hans ástríða hrein,
því hjákonum oftlega hossaði á,
og heldur þá tvær eða ein.

Krampasviti kaldur,
klæðir hinn gráleita ná.
Enginn fellir eitt einasta tár,
er auðmanninn steindauða sjá.

Gröfinni er lokað með grjóti og aur,
grafarinn hneigir sig stirt.
Rándýrann úthöggvinn reisa þeir stein,
en restin er slælega hirt.

til baka